Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 479 . mál.


806. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. lög nr. 124/1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „5%“ í síðari málslið 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 124/1995, kemur: 3%.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „3%“ í fyrri málslið 1. mgr. 21. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 124/1995, kemur: 1,8%.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III með lögum nr. 124/1995, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum, fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þær breytingar á lögum nr. 93/1993 sem frumvarp þetta felur í sér eru gerðar að beiðni Bændasamtaka Íslands. Þær eru samhljóða ályktunum Búnaðarþings árið 1997. Breytingarnar fela annars vegar í sér að dregið verði úr töku verðskerðingargjalda af kindakjöti sem verja skal til almennra markaðsaðgerða og hins vegar að afnumið verði verðskerðingargjald sem innheimt er samkvæmt bráðabirgðaákvæði III með lögum nr. 124/1995, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að verðskerðingargjald til markaðsaðgerða innanlands, sem tekið er af framleiðendum, verði lækkað úr 5% af grundvallarverði á kindakjöti til bænda í 3%. Áætla má að innheimta verðskerðingargjalds samkvæmt þessu muni lækka úr 72 millj. kr. í 43 millj. kr.

Um 2. gr.


    Lagt er til að verðskerðingargjald til markaðsaðgerða innanlands, sem tekið er af sláturleyfishöfum, verði lækkað úr 3% af slátur- og heildsölukostnaði kindakjöts í 1,8%. Áætla má að innheimta verðskerðingargjald samkvæmt þessu muni lækka úr 29 millj. kr. í 17 millj. kr.

Um 3. gr.


    Í samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 1. október 1995 var samið um ráðstafanir til að koma birgðum kindakjöts í ásættanlegt magn. Birgðir kindakjöts í byrjun sláturtíðar haustið 1995 voru 2.225 tonn af dilkakjöti og 442 tonn af kjöti af fullorðnu fé. Æskilegar birgðir eru taldar vera um 500 tonn eða tæplega fimmti hluti fyrirliggjandi birgða. Gert var ráð fyrir að tvö ár tæki að ná þeirri birgðastöðu sem að var stefnt. Miðað var við að birgðajafnvægi skyldi komið á áður en opinber verðlagning á sauðfjárafurðum til bænda yrði aflögð haustið 1998. Því var í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði ákveðið að innheimta árin 1996 og 1997 sérstakt 3% verðskerðingargjald af bændum og 2% verðskerðingargjald af sláturleyfishöfum til markaðsaðgerða er kæmu til viðbótar verðskerðingargjöldum skv. 20. og 21. gr. laganna. Jafnframt var ákveðið að ráðstafað skyldi í sama skyni fé til uppkaupa á greiðslumarki skv. 5. gr. samningsins um framleiðslu sauðfjárafurða sem ekki nýttist til uppkaupa á samningstímanum.
    Afsetning birgða gekk hraðar en áætlað hafði verið. Í byrjun sláturtíðar haustið 1996 voru birgðir dilkakjöts 755 tonn og birgðir af kjöti af fullorðnu 165 tonn. Því til viðbótar var framleiðsla á liðnu hausti nokkru minni en gert var ráð fyrir þegar ákvörðun um útflutningsskyldu skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 var tekin fyrir framleiðslu haustið 1996. Þetta samanlagt leiddi til þess að birgðir kindakjöts voru um síðustu áramót komnar í það horf að jafnvægi var fullkomlega náð. Birgðir kindakjöts höfðu minnkað um 1.886 tonn á árinu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 99/1993,


um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


    Frumvarp þetta felur í sér breytingar á verðskerðingargjöldum í landbúnaði en þau eru innheimt í þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi í birgðum kindakjöts. Gjöldin eru innheimt af framleiðendum og sláturleyfishöfum og varið til markaðsaðgerða innan lands. Innheimta gjaldanna er á hendi Framleiðsluráðs landbúnaðarins og fer því ekki í gegnum ríkissjóð. Áætlað er að heildarlækkun verðskerðingargjalda verði 41 m.kr. eða úr 101 m.kr. í 60 m.kr. Breytingar þessar eiga sér stoð í ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 124/1995, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.
    Ekki verður séð að frumvarp þetta, verði það að lögum, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.